Tryggt öryggi upplýsinga með frjálsum hugbúnaði

Snjallsíminn er eitt helsta tæki næstu kynslóða í samskiptum og samvinnu. Snjallsíminn er aftur á móti stórt skref aftur á bak hvað varðar persónuvernd, nafnleynd og öryggi.

Einstaklingar og/eða fyrirtæki sem vinna með viðkvæmar upplýsingar geta orðið fyrir óbætanlegum skaða ef upplýsingarnar komast í hendur óviðeigandi aðila. Hvort sem það er lögfræðingur, stjórnmálamaður, blaðamaður eða Jóna og Jói á götunni. Stjórnmálamaðurinn vill hugsanlega eiga leynd samskipti við sinn aðstoðarmann og ef ske kynni að hann sendi óvart  póst á alla fjölmiðla landsins, þá væri gott að innihald póstsins væri ólæsilegt öðrum en aðstoðarmanni hans. Lögfræðingur getur verið að vinna með viðkvæmar upplýsingar í viðskiptum eða sakamáli og vill geta sent tölvupóst eða skilaboð sem aðeins skjólstæðingur hans getur lesið. Blaðamaður hefur þörf á að vernda heimildamenn og vill  geta átt símtal við heimildamenn sem ekki er hægt að hlera og svo mætti lengi telja.

Með nútímatækni eru samskipti okkar sífellt að eiga sér stað með fleiri tækjum, hvort sem það er farsíminn, tölvan eða spjaldtölvan. Við erum kominn með Snapchat, Google Hangouts, Ichat, Viber og vistum skjöl í Dropbox. En hvort sem við viljum auka persónuleynd okkar á netinu  eða verja mikilvæg samskipti og upplýsingar þá er hægt að efla okkar gagnaöryggi með frjálsum og ókeypis forritum.

Öryggi upplýsinga
Öryggi upplýsinga

Hvernig fer ég þá að ef ég vil taka rafæn samskipti mín á næsta stig? Förum stuttlega yfir þau forrit sem bjóða upp á aukna persónuvernd og hvernig við notum þau og byrjum á tölvupóstinum. Þegar við eigum samskipti með viðkvæmar upplýsingar og viljum tryggja að eingöngu réttur viðtakandi geti lesið póstinn þá er hægt að dulkóða póstinn með Enigma viðbót (plugin) í t.d Thunderbird póstforritinu. Með viðbótinni býrð þú til einkalykil og opinberan lykil. Ef einhver vill senda þér dulkóðaðan póst sem aðeins þú getur lesið þá notar hann opinbera lykilinn þinn til að dulkóða póstinn. Með þessu móti getur aðeins þú opnað póstinn þar sem aðeins þinn einkalykill getur opnað skilaboð sem dulkóðuð eru með opinbera lyklinum þínum. Með sama hætti sendir þú dulkóðað skeyti á viðtakanda með opinbera lyklinum hans. Allt hljómar þetta nú flókið og leyniþjónustulegt en í raun er um einfalda uppsetningu að ræða og auðvelda í framkvæmd. Engin þörf á að hringja í Q. Þú getur lesið leiðbeiningar hvernig Enigma er sett upp hér: https://emailselfdefense.fsf.org/en/

En við notum einnig sms samskipti og spjallforrit eins og Google Hangouts bæði í síma og tölvunni. Það eru til frjáls og opin forrit sem bjóða upp á dulkóðuð samskipti. Sem dæmi er hægt að sækja forrit fyrir Android og Iphone  sem heitir Chatsecure https://chatsecure.org/ og býður upp á dulkóðuð samskipti í gegnum Google notandareikninga. Svo framarlega að notendur séu með sambærilegt forrit uppsett á sínum síma (annars eru samskiptin ódulkóðuð). Hægt er að setja upp fleiri reikninga eins og Facebook chat, Windows Messenger (MSN) og margt fleira. Einn staður fyrir öll skilaboð.

Ef þú vilt senda dulkóðuð SMS skilaboð þá er hægt að sækja forritið TextSecure. Sé móttakandinn með sama forrit er hægt að senda dulkóðað SMS sem aðeins hann getur lesið. Ef einhver kæmist í SMS skilaboðin hjá símafélaginu þá væru þau ólæsileg.

Fyrir tölvuna er hægt að sækja forritið Pidgin https://pidgin.im/ fyrir Linux, makka og Windows og notað forritið sem spjall fyrir Facebook, Google Hangouts, Windows Messenger (MSN) og fleira. Pidgin dulkóðar samskiptin eins og Chatsecure, svo framarlega sem móttakandinn er einnig með sambærilegt forrit. Eitt annað forrit sem hægt er að nota í símanum og tölvunni og er ekki ósvipað Viber er Telegram en ólíkt Viber getur Telegram dulkóðað samskipti á milli notanda sem tala saman kjósi þeir það.

Munið þið eftir nafnleyndinni sem símaklefi bauð upp á? Nú er það einnig hægt í gegnum farsímann. Hringja símtöl sem fara ekki í gegnum farsímakerfið, eru ekki skráð og ekki hægt að hlera. Það er einfaldara en þú heldur. Ef þú vilt skoða frekar að efla öryggi samskipta í gegnum símann þá er hægt að skoða heimasíðu The Guardian Project en þar er að finna yfirlit yfir öll þessi forrit og hvernig þau eru sett upp með mjög einföldum hætti. https://guardianproject.info/

Meira um dulkóðun í spjallforritum í tölvunni eða símanum er hægt að lesa hér: http://freedomhacker.net/secure-chat-on-ios-android-and-computer/

Viltu skoða málið frekar en vantar aðstoð? Hafðu þá samband.