Nú þegar fyrirtæki eins og Microsoft og Adobe farin að selja sína vörur með áskriftaleið þá eru fyrirtæki og einstaklingar farin að skoða hvort það séu ekki til aðrir valkostir. Einn kostur sem hægt er reyna til að ná aukinni hagræðingu er að færa tölvubúnað úr dýrum leyfisskyldum hugbúnaði yfir í frjálsan (ókeypis) og opinn hugbúnað.
Engin leyfisgjöld fylgja frjálsum hugbúnaði og notendum er frjálst að deila, breyta og fjölfalda hugbúnaðinn. Leyfisskyldur hugbúnaður gerir oft meiri kröfur til vélbúnaðar og krefst að auki nauðsynlegra forrita eins og vírusvarna og skrifstofuvöndla. Því er vert að skoða frjálsan og opinn hugbúnað sem má setja upp á eins margar vélar og kostur er án nokkurs aukakostnaðar eða leyfisgjalda. Einnig er frjáls hugbúnaður oft léttari í keyrslu, öruggur gegn vírusum og gefur notendum kost á að vinna í hraðvirku kerfi sem krefst minni umsýslu og umsjónar og umfram allt nýtir slíkur hugbúnaður eldri vélbúnað lengur — hægt er að ná fleiri kílómetrum á hverja tölvu, ef svo má segja.
Hvernig er best að byrja?
Skrifstofuvöndullinn
Einfaldasta leiðin til að ná strax sparnaði án þess hreyfa við núverandi uppsetningu tölvukerfa er að byrja á að nota LibreOffice í stað t.d. Microsoft Office. LibreOffice virkar á öll stýrikerfi og með því að setja upp LibreOffice á tölvur er hægt að spara leyfissgjöld á Microsoft Office sem getur verið talsverð upphæð á hverju ári.
Tölvupóstur
Næsta skref væri að setja upp Evolution eða Thunderbird tölvupóst forritið og með því móti losað Lotus Notes eða MS Outlook. Sem dæmi tengist Evolution MS Exchange þjónum og getur hann því komið í stað Microsoft Outook.
Skjalastjórnunarkerfi
Fjölmörg fyrirtæki treysta á skjalastjórnunarkerfi til að halda utan um skjöl fyrirtækisins og verkefni. Oft eru leyfisskyld skjalastjórnunarkerfi mjög tengt öðrum forritum eins og t.d. Lotus Notes og MS Office skrifstofuvöndullinn en fjölmargar frjálsar lausnir eru fáanlegar hvort sem notað er frjálsforriti eða ekki.
Er hægt að gera meira?
Þegar starfsmenn eru farnir að nota libreOffice fyrir skjalavinnslu og Thunderbird fyrir tölvupóst þá er lítið mál að taka næsta skref og setja upp Ubuntu/linux stýrikerfi á tölvur fyrirtækisins og spara með því leyfissgjöld fyrir Windows. Allar uppfærslur á Ubuntu/Linux stýrikerfinu eru ókeypis. Vinna starfsmanna er í síauknu mæli farin að eiga sér stað í gegnum vef-vafra og í mörgum tilvikum þarf starfsmaður eingöngu að komast á netið og nálgast tölvupóstinn til að vinna, þá er stýrikerfið sem hann vinnur á oft aukaatriði. Hvers vegna ekki velja þá stýrikerfið sem er ókeypis.
Frjáls og opin hugbúnaður
Microsoft Office: LibreOffice
LibreOffice skrifari (word), töflureiknir, teikniforrit, glæruforrit og gagnagrunnur og allt er það ókeypis. LibreOffice opnar og vistar Microsoft Office-skjöl og því hægt að deila skjölunum með samstarfsfélögum sem nota Microsoft Office.
Microsoft Outlook: Evolution / Thunderbird
Öflugt póstforrit með dagbók er mikilvægt verkfæri fyrir hverja stofnun og fyrirtæki. Í Ubuntu/Linux er fáanlegur fjöldi póstforrita sem leysa Microsoft Outlook af hólmi og nefnum við hér tvö. Fyrra forritið hefur svipað viðmót og og MS Outlook og heitir Evolution. Evolution getur tengst Microsoft Mail exchance-þjónum og hefur öfluga dagbók og verkefnaskrá (taskslist). Annað forrit er hið öfluga og þekkta póstforrit Thunderbird en einnig er hægt að bæta við dagbókarforriti í Thunderbird og því fátt eftir nema að byrja að vinna!
Oracle mannauðsstjórnunarkerfi: WaypointHR
Þegar starfsmönnum í fyrirtækjum fer fjölgandi er nauðsynlegt að nota mannauðsstjórnunarkerfi til að halda utan um upplýsingar starfsfólks. WaypointHR er frjálst forrit sem kostar ekki krónu og hægt að setja upp á þinn eigin netþjón. Viðmótið er á netinu og er einfalt og notendavænt.
Bókhalds og launakerfi: SQL-Ledger
Það eru fjölmargir valmöguleikar þegar kemur að bókhalds- og launakerfi í Ubuntu/Linux; eitt þeirra er SCL-Ledger og er frjálst forrit, aðgengilegt í gegnum alla netvafra og býður upp á fjölda möguleika.
Microsoft Publisher: LibreOffice Draw / Scribus
LibreOffice Draw er fjölhæft teikniforrit sem býður upp á fjölda leiða til að teikna, setja upp og hanna. Einnig er til öflugt umbrotsforrit sem heitir Scribus og er ekkert ósvipað og Adobe Indesign þar sem hægt er t.d. að setja upp tímarit, bækur og bæklinga.
Adobe Photoshop: Gimp
Ef hægt er að gera það í Photoshop er hægt að gera það í Gimp (svona nánast), öflugasta myndvinnsluforritið sem kostar ekki krónu.
MindManager / Xmind: Freemind
Þegar þankarok hefst eða unnið er með flóknar hugmyndir eða verkefni er fátt betra en að nota hugarkortsforrit sem heldur utan um hugmyndir og auðveldar flokkun verkefna. FreeMind er frjálsa og opna útgáfan sem fáanleg er á Ubuntu/Linux og Windows en fleiri valmöguleikar eru einnig til.
Frjáls hugbúnaður is licensed under a Creative Commons Attribution 4.0 International License.
Permissions beyond the scope of this license may be available at birgir.org.