Fjölmiðlunarkennsla með frjálsum hugbúnaði — er það góð hugmynd2?

Fjölmargir skólar bjóða upp á fjölmiðlanámskeið þar sem nemendur fá gott tækifæri til að spreyta sig á sem flestum verkefnum tengt fjölmiðlun.

Hver veit nema að næsti Helgi Seljan leynist meðal nemenda þinna? En hvað þarf í slíka kennslu? Til að byrja með þarf eflaust hæfan kennara. Nóg er til af þeim, vona ég. Svo þurfa nemendur tæki og tól til að vinna verkefnin hvort sem það er í myndbandagerð, blaðaútgáfu, tónlistarútgáfu eða á vefmiðli.

Nemendur verða að hafa aðgang að tölvum og forritum til að klippa myndskeiðin í skemmtilegar fréttir eða vinna ljósmyndir og nota í tímaritið sem verið er að setja upp. Oftar en ekki eru þetta dýr leyfisskyld forrit, og greiða þarf fyrir notkunina árlega. Hugsanlega hefur skólinn einungis bolmagn til að hafa eina tölvu með viðeigandi hugbúnaði. Ekki er kostnaðarlega raunhæft að hafa forritin á mörgum tölvum og borga mörgum sinnum fyrir Adobe InDesign, Corel Draw, Photoshop, FinalCut, Quark og ProTools eða hvað sem öll þessi forrit heita. Þó svo að hægt sé að komast ansi langt á Microsoft Publisher og Movie Maker, myndum við seint telja að nemendum væri góður grunnur búinn í fjölmiðlunarvinnslu með notkun á þeim hugbúnaði eingöngu.

Skólar á Íslandi þurfa að bjóða upp á besta mögulega lærdómsumhverfi fyrir nemendur og oftar en ekki hafa þeir takmarkað fjármagn að moða úr. Einnig má búast við því að tölvukostur skólans sé ekki sá allra nýjasti með öflugum fjórkjarna Intel-örgjörvum og Nvidia fjögurra „gígabæta“ súper dúper skjákorti sem hellir upp á expressó á meðan nýjasta myndskeiðið er „renderað“. Nei, sennilega er verið að spara aurinn og nýta þann vélbúnað sem skólinn hefur kost á hverju sinni.

Hvað er þá hægt að gera? Ekki eru til takmarkalausir fjármunir í skólakerfinu. Hvað með allt þetta þras um frjálsan hugbúnað? Er eitthvað hægt að finna þar? Hvað með að kíkja á þetta Linux-dæmi? Skyldi Linux bjóða upp á eitthvað? Stutt leit á Google að „open source multi media software“ kemur með ýmsar áhugaverðar niðurstöður.

Væri samt ekki gaman að geta fengið allt í einum pakka? Tilbúið með flottustu frjálsu fjölmiðaforritin á einum stað og þurfa ekki að fara og sækja hugbúnaðinn á marga staði og berjast við að setja forritin upp í tölvunni og hvaðeina? Bara að fá stýrikerfi með öllum pakkanum? Það er nú þegar til og heitir Ubuntu Studio, og það besta við það er að það kostar ekki krónu. Engin leyfisgjöld og það má setja það upp á eins margar tölvur og fólk vill.

blender
Blender 3D teikniforrit.

Ubuntu Studio er frjálst og ókeypis stýrikerfi fyrir skapandi fólk. Hvort sem markmiðið er grafísk vinna, þrívíddarteikningar, tímaritagerð, ljósmyndun, kvikmyndaklipping, upptaka á hljómplötu og útgáfa á geisladisk eða gerð næstu stóru kvikmyndarinnar þá er Ubuntu Studio með svarið. Og þar sem hugbúnaðurinn er frjáls og ókeypis er hægt að búa til fjölda afrita af stýrikerfinu og gefa nemendum. Hver og einn væri með sama hugbúnaðinn heima hjá sér. Þá koma allir að sama borði óháð fjárhag fjölskyldunnar eða félagslegra aðstæðna. Ekki hafa áhyggjur, það þarf ekki að henda út Windows-stýrikerfinu sem kom með tölvunni. Hægt er að setja Ubuntu Studio upp á tölvur samhliða Windows-stýrikerfi. Þegar kveikt er á tölvunni velur notandinn hvort hann ætlar í Ubuntu Studio eða Windows.

 

Scribus umbrotsforritið
Scribus umbrotsforritið

Ubuntu Studio virkar einnig vel á eldri vélbúnað, í það minnsta keyrir Ubuntu Studio eins og ekkert sé á 7 ára gömlu Asus-fartölvunni minni. Það eina sem ég þurfti að gera var að sækja Ubuntu Studio af vefsíðu þeirra, www.ubuntustudio.org, skrifa Iso-skjalið á DVD-disk og endurræsa vélina með diskinn í geisladrifinu. Rúmlega hálftíma seinna var tölvan tilbúin með Ubuntu Studio ásamt öllum nauðsynlegum margmiðlunarforritum.

Nú hefur sennilega einhver spurt sig: ,,Gæti notkun á frjálsum hugbúnaði ekki gert nemendum erfitt að læra á (dýr) leyfisskyld margmiðlunarforrit sem fyrirtæki nota?“ Svarið við þessari spurningu er þvert á móti. Frjáls hugbúnaður gefur nemendum góðan grunn sem byggja má ofan á þar sem vinnuferlið er sambærilegt við leyfisskyld forrit. Svo eru fjölmörg fyrirtæki sem nota eingöngu frjálsan hugbúnað í sinni sköpun. Farðu á www.birgir.org og sjáðu hvaða fyrirtæki vinna að sköpun með frjálsum hugbúnaði og hvað hægt er að gera.

Já, kæri lesandi, ekki er þörf á að bíða eftir viðeigandi fjárveitingu frá ríkinu eða samþykki þeirra sem halda utan um budduna hjá sveitarfélaginu. Hægt er að efla fjölmiðlakennslu í skólum landsins strax í dag. Það eina sem þarf að gera er að setja upp Ubuntu Studio og byrja að vinna.